Orðskýringar

Afbrigði

Ef forseti Alþingis eða formaður þingflokks gerir uppástungu um að bregða út af þingsköpum Alþingis og það er samþykkt af tveimur þriðju hluta þeirra þingmanna sem greiða atkvæði er talað um að veitt sé afbrigði. Leita þarf afbrigða, t.d. ef taka á mál til afgreiðslu með styttri fyrirvara en þingsköp gera ráð fyrir. 

Almennar stjórnmálaumræður

Sjá  eldhúsdagsumræður.

Alþingistíðindi

Alþingistíðindi er útgáfa á þingskjölum og þingfundum.  Frá árinu 2011 eru Alþingistíðindi eingöngu gefin út á vef.

Andsvör

Andsvör eru stuttar ræður, athugasemdir eða andmæli, sem þingmenn mega koma að strax og ræðu er lokið. Þingmenn mega veita andsvar tvívegis og ræðumaður má svara hverjum tvisvar.

Megintilgangur með andsvörum er að gera umræður líflegri, skoðanaskipti hraðari og jafnframt stytta umræður. Andsvör á eftir hverri ræðu mega ekki standa lengur en í 15 mínútur. Hvert andsvar má að jafnaði standa í tvær mínútur. 

Atkvæðagreiðslur

Atkvæðagreiðslur á Alþingi fara jafnan fram rafrænt. Þegar atkvæðagreiðsla skal fara fram setur þingforseti í gang hljóðmerki sem heyrist um allt þinghúsið og kallar þingmenn þannig til þingsalarins. Að minnsta kosti helmingur þingmanna verður að taka þátt í atkvæðagreiðslunni svo að hún teljist gild. Afl atkvæða ræður úrslitum mála. 

Þingmaður  greiðir atkvæði með því að ýta á einn af tökkunum á borði sínu: „já“, „nei“ eða „greiðir ekki atkvæði“. Ef þingmaður ætlar að sitja hjá ýtir hann á hnappinn „greiðir ekki atkvæði“; hann verður að taka þátt í atkvæðagreiðslunni þótt hann ætli að sitja hjá.  Atkvæðagreiðsla getur einnig farið fram með handauppréttingu og þingmenn sýna þannig afstöðu sína. Einnig geta þingmenn farið fram á það við forseta að hann láti fara fram nafnakall og spyr þá forseti hvern þingmann með nafni hvort hann sé með eða á móti máli. Við atkvæðagreiðslu með rafbúnaði og við nafnakall geta þingmenn komið í ræðustól og gert stutta grein fyrir afstöðu sinni við atkvæðagreiðsluna.

Telji forseti þingsins líklegt að allir séu á einu máli getur hann lýst því yfir að gert sé út um atriði án atkvæðagreiðslu ef enginn þingmaður mótmælir því. Við lokaafgreiðslu lagafrumvarpa og þingsályktunartillagna verður að fara fram atkvæðagreiðsla.

Niðurstöður atkvæðagreiðslu eru aðgengilegar á vefsíðum þingfundarins og þingmálsins.

Ávarpsform á þingfundum

Í þingsalnum mæla menn úr ræðustól, beina ræðu sinni til forseta þingsins og ávarpa hann „frú forseti/herra forseti“ eða „hæstvirtur forseti“. Í ræðu skal ekki ávarpa einstaka þingmenn eða beina máli til þeirra beint. Þegar þingmenn eru nefndir á nafn eru þeir kenndir við kjördæmi og kosninganúmer sitt, t.d. 9. þingmaður Suðurkjördæmis. Einnig má nefna þingmenn fullu nafni, en ávallt eru þeir kallaðir háttvirtir. Ráðherrar eru ávarpaðir sem hæstvirtir ráðherrar, t.d. hæstvirtur forsætisráðherra.

Bandormur

Bandormur er notað sem heiti á frumvarpi þegar mörgum lögum er breytt samtímis og flutt eitt frumvarp um það, t.d. þegar gripið er til margháttaðra efnahagsaðgerða.

Breytingartillögur

Breytingartillögur við lagafrumvörp og þingsályktunartillögur eru prentaðar og útbýtt á þingfundum. Ráðherrar, þingmenn og þingnefndir (nefndin öll eða meiri og minni hluti/hlutar) mega leggja fram breytingartillögur. Þær eru aðallega til afgreiðslu við 2. umræðu, en einnig oft við 3. umræðu. 

Dagskrá

Forseti Alþingis ákveður dagskrá hvers fundar. Hann getur breytt röð þeirra mála sem eru á dagskrá og einnig tekið mál út af dagskrá. Forseti getur leyft að umræður fari fram um tvö eða fleiri dagskrármál í einu ef þau fjalla um skyld efni eða það þykir hagkvæmt af öðrum ástæðum ef enginn andmælir því.

Drengskaparheit

Þegar þingmaður tekur sæti á Alþingi í fyrsta sinn skal hann undirrita drengskaparheit að stjórnarskránni undireins og búið er að viðurkenna að kosning hans sé gild. Drengskaparheitið er svohljóðandi: Ég undirskrifaður/uð, sem kosin(n) er þingmaður til Alþingis Íslendinga, heiti því, að viðlögðum drengskap mínum og heiðri, að halda stjórnarskrá landsins.

Eldhúsdagsumræður

Almennar stjórnmálaumræður sem fara fram á síðari hluta þings eru í daglegu tali kallaðar „eldhúsdagsumræður“. Í eldhúsdagsumræðum er rætt um störf og stefnu ríkisstjórnarinnar. Þeim er útvarpað og sjónvarpað. Ítarleg umfjöllun um eldhúsdagsumræður er í Handbók Alþingis 2003, bls. 239-261.

Erindi

Með erindum er átt við umsagnir, álit og önnur gögn frá ráðuneytum, stofnunum, samtökum, fyrirtækjum og einstaklingum. Sérstakar reglur, sem forsætisnefnd Alþingis hefur sett, gilda um meðferð erinda til þingnefnda og aðgang að þeim, sjá reglur um meðferð erinda til þingnefnda.

Flutningsmaður/framsögumaður

Fyrsta eða fyrri umræða máls hefst á því að flutningsmaður þess, ráðherra eða þingmaður, flytur framsöguræðu. Framsögumenn nefnda (meiri og minni hluta ef nefnd hefur klofnað) hefja 2. umræðu máls með því að mæla fyrir nefndarálitum. 

Frumvörp til laga

Frumvarp til laga er annaðhvort stjórnarfrumvarp, flutt af ríkisstjórninni að forgöngu þess ráðherra sem málið heyrir undir, eða þingmannafrumvarp, flutt af þingmönnum, einum eða fleiri. Fyrir kemur að frumvörp eru flutt af þingnefnd og þá stundum að beiðni ráðherra. Forsætisnefnd og þingflokkar geta einnig flutt frumvörp. Frumvarp er rætt við þrjár umræður.

Við 1. umræðu mælir flutningsmaður fyrir málinu og fram fer almenn umræða um það. Eftir 1. umræðu gengur frumvarpið til einnar af nefndum þingsins eftir efni þess. Eftir umfjöllun sína skilar nefndin nefndaráliti og stundum breytingartillögum.

Við 2. umræðu eru ræddar einstakar greinar frumvarpsins og að lokum greidd atkvæði um þær. Einnig eru greidd atkvæði um breytingartillögur ef einhverjar eru. Breytist frumvarpið við 2. umræðu skal nefnd fjalla um frumvarpið að nýju áður en 3. umræða hefst ef þingmaður eða ráðherra óskar þess. Nefndin skilar þá framhaldsnefndaráliti. Algengast er að frumvörp gangi beint til 3. umræðu.

Lokaafgreiðsla lagafrumvarps fer fram við 3. umræðu. Þá er á ný rætt um frumvarpið í heild og að því loknu greidd atkvæði um breytingartillögur ef einhverjar eru. Eftir að atkvæði hafa verið greidd um breytingartillögur eru að síðustu greidd atkvæði um frumvarpið eins og því hefur þá verið breytt. Lagafrumvarp, sem er fellt, má ekki bera upp aftur á sama þingi. Frumvarp, sem þingið samþykkir, er sent ríkisstjórninni sem lög frá Alþingi. Lög taka ekki gildi fyrr en þau hafa verið undirrituð af forseta Íslands og birt í Stjórnartíðindum. 

Fyrirspurnir

Þingmaður getur lagt fram skriflega fyrirspurn til ráðherra um opinbert málefni og er henni annaðhvort svarað munnlega á vikulegum fyrirspurnafundi í þingsal eða ráðherra veitir skriflegt svar við henni. Einnig geta þingmenn lagt fyrirspurnir fyrir forseta Alþingis á þingskjali og óskað skriflegs svars um stjórnsýslu á vegum þingsins. 

Forseti Alþingis getur einnig heimilað þingmönnum að bera munnlega fram svokallaðar óundirbúnar fyrirspurnir til ráðherra í þingsal sem svara á um leið og spurningin hefur verið borin upp án þess að ráðherrar hafi fengið spurningarnar fyrir fram. Slíkur fyrirspurnatími er að jafnaði á dagskrá í allt að hálftíma í þingsal tvisvar í hverri heilli starfsviku. 

Gerðabók 

Alþingistíðindi, B-deild, eru gerðabók þingsins. Þar eru birtar fundargerðir um allt sem fer fram á þingfundum, ræður sem eru fluttar, atkvæðagreiðslur o.s.frv. 

Greinargerð

Frumvörpum til laga og þingsályktunartillögum fylgir greinargerð þar sem fram kemur tilgangur með flutningnum og hugmyndin sem liggur að baki málinu. 

Kallað aftur

Snúist þingmanni hugur og hann vill hætta við mál sem hann hefur lagt fram þarf hann að tilkynna forseta það bréflega. Þá er skráð, þegar forseti hefur lesið um það tilkynningu á þingfundi, að skjalið hafi verið kallað aftur. Einnig er hægt að kalla breytingartillögur aftur þegar atkvæðagreiðsla fer fram.

 

Málsnúmer

Þingmál hvers löggjafarþings sem lögð eru fram á skjölum fá tvö hlaupandi númer, málsnúmer og þingskjalsnúmer. Öll viðbótarþingskjöl í þingmálinu hafa sama málsnúmer en fá eigið þingskjalsnúmer. Málsnúmerið auðkennir þannig þingskjöl í hverju máli fyrir sig. Til dæmis er fjárlagafrumvarp yfirleitt með málsnúmer 1 og þingskjalsnúmer 1 en síðan bætast við málið fleiri skjöl þegar nefnd lýkur afgreiðslu eða þegar breytingartillögur koma fram (t.d. 1. mál, þskj. 345). Öll þingmál falla niður í lok hvers löggjafarþings.

Nefndarálit

Þegar þingnefndir taka mál til umfjöllunar kalla þær eftir áliti hagsmunaaðila og sérfræðinga annaðhvort skriflega eða þær fá gesti á fundi sína. Þegar nefnd hefur lokið athugun máls skilar hún skriflegu nefndaráliti um hvernig hún telur að þingið skuli afgreiða málið. Ef nefnd er ekki einhuga (klofnar) skilar hver hluti sérnefndaráliti. Auk viðhorfa nefndarmanna kemur fram í nefndaráliti lýsing á vinnu nefndarinnar að málinu. Einnig getur nefndin birt með álitinu ýmis fylgiskjöl, svo sem bréf frá hagsmunaaðilum eða ráðuneytum. 

Prentað upp

Vilji þingmaður breyta þingmáli á einhvern hátt eftir útbýtingu, t.d. ef villa kemur í ljós, þarf hann að óska eftir leiðréttingu hjá þingfundaskrifstofu og er þá endurprentuðu skjalinu útbýtt. Skjal sem hefur verið endurprentað er auðkennt með orðunum „prentað upp“, „2. uppprentun“, „3. uppprentun“ o.s.frv. ef þörf krefur, efst til hægri á forsíðu. Þar fyrir neðan er stutt skýring, t.d. flutningsmenn, leiðrétting, dagsetning. Jafnframt eru textabreytingar merktar með lóðréttri punktalínu á spássíu.

Reglugerðir

Reglugerðir eru nánari fyrirmæli sem ráðherrum er falið að setja um framkvæmd laga. Stjórnarráðið heldur úti safni reglugerða á vefnum reglugerd.is.

Sérstök umræða

Sérstakar umræður eru háðar samþykki forseta og eru leyfðar ef mál er mikilvægt og aðkallandi að ræða það. Með þeim hætti geta þingmenn fengið mál rædd, hvort heldur er í formi yfirlýsingar eða fyrirspurnar til ráðherra, með mjög skömmum fyrirvara. Sjá um ræðutíma í sérstakri umræðu í reglum um ræðutíma.  (Sérstakar umræður kölluðust umræður utan dagskrár/utandagskrárumræður til 2010).

Skýrslur

Á hverju þingi eru lagðar fram nokkrar skýrslur. Ráðherrar geta lagt fram skýrslur ótilkvaddir, en eins geta þingmenn farið fram á að ráðherra gefi þinginu skýrslu um opinber málefni. Ráðherrar geta einnig flutt skýrslur munnlega. Loks er þingnefndum heimilt að leggja fram skýrslu um störf sín eða athugun á einhverju máli. Starfsskýrsla Ríkisendurskoðunar og ársskýrsla umboðsmanns Alþingis eru einnig ræddar árlega á þingfundi.

Störf þingsins

Í allt að hálftíma á fyrir fram ákveðnum þingfundum, að jafnaði tvisvar í viku á þingtímanum, geta þingmenn kvatt sér hljóðs um störf þingsins, gefið yfirlýsingu eða beint spurningum til formanna nefnda, formanna þingflokka eða annarra þingmanna.

Umsagnir

Nefndir senda að jafnaði þingmál sem þær hafa til umfjöllunar til umsagnar þeim er málið varðar. Umsagnaraðilar fá yfirleitt tveggja til þriggja vikna frest til að koma skriflegum athugasemdum á framfæri við nefnd, en rétt er að taka fram að þeim sem fá mál til umsagnar er ekki skylt að svara. Allar umsagnir sem nefndum berast eru gerðar aðgengilegar nefndarmönnum fyrir fund og birtar á vef Alþingis. 

Öllum er frjálst að senda nefnd skriflega umsögn um þingmál að eigin frumkvæði. 

Umræður

Um umræður á Alþingi gilda reglur sem mælt er fyrir um í þingsköpum. Breyttar reglur um ræðutíma tóku gildi í janúar 2008. Í töflu um reglur um ræðutíma er nákvæmlega tilgreint hversu lengi ræðumenn mega tala við hverja umræðu. Í þingsalnum mæla menn úr ræðustól, beina ræðu sinni til forseta þingsins og ávarpa hann -sjá ávarp. Allar umræður í þingsalnum eru teknar upp (myndupptökur og hljóðupptökur) og birtar á vef Alþingis, upptökur af umræðum hafa verið birtar frá árinu 2007.


Útbýting

Meginregla þingskapa um útbýtingu þingskjala er að hún fer fram á þingfundi með tilkynningu forseta. Þingskjöl eru einnig birt á vef Alþingis og lögð fram í útbýtingarherbergi (við hlið þingsalarins) eftir því sem þau berast meðan á þingfundi stendur og eru opinber án þess að um þau sé tilkynnt í hvert sinn. Í upphafi þingfundar og í lok hans les forseti lista yfir útbýtt þingskjöl. Utan þingfunda má einnig, ef nauðsyn ber til, útbýta þingskjölum með því að birta þau á vef Alþingis.

Vantraust

Í þingræðisríki, eins og Íslandi, gildir að ríkisstjórn og ráðherrar landsins sitja í umboði þingsins og þurfa að njóta trausts eða hlutleysis meiri hluta þess. Samþykki hins vegar þingið vantraust, hvort sem er á einstaka ráðherra eða ríkisstjórn, ber þeim sem verða fyrir vantrausti að segja af sér. Vantrauststillaga er lögð fram í formi þingsályktunartillögu. Dæmi eru um að í vantrauststillögum á ríkisstjórn sé mælst til þess að þing verði rofið og boðað til kosninga, en ef ekki er sérstaklega getið um það í ályktuninni er mögulegt að mynduð verði ný ríkisstjórn án þessa að ganga til kosninga áður. Um meðferð vantrauststillagna gilda ákvæði 2. mgr. 45. gr. laga um þingsköp Alþingis, nr. 55/1991.  Yfirlit um vantrauststillögur.

Þingflokkar

Þingmenn skipa sér í þingflokka og velja sér formann. Þingflokkarnir velja menn til trúnaðarstarfa á vegum Alþingis og þá sem gegna ráðherraembættum á vegum flokksins. Staða þingflokka er sterk innan stjórnmálaflokkanna og þeir hafa mikil áhrif á pólitíska stefnumótun. Hlutverk þingflokka er nokkuð breytilegt eftir því hvort flokkurinn á aðild að ríkisstjórn eða er í stjórnarandstöðu. Á þingflokksfundum er fjallað um ný þingmál sem þingmenn og ráðherrar hyggjast leggja fram og stöðu mála í þingnefndum og afstaða er tekin til einstakra mála og breytingartillagna við þau. Þingflokkar koma vanalega saman til fundar tvisvar í viku á þingtímanum. 

Þingfrestun 

Þegar gert er hlé á fundum Alþingis lengur en í tvær vikur er slíkt gert með formlegri samþykkt þingsins og það nefnt þingfrestun. Þegar störfum Alþingis er frestað með slíkri formlegri samþykkt kemur það ekki saman að nýju fyrr en með bréfi forseta Íslands þar að lútandi. Fundum Alþingis er að jafnaði frestað í jólahléi þingsins enda varir það hlé oftast í 3─4 vikur. Þá lýkur störfum Alþingis að vori eða sumri einnig með samþykkt þingfrestunar enda kemur Alþingi að jafnaði ekki aftur saman fyrr en við upphaf nýs þings í september. Heimilt er að kalla Alþingi saman til framhaldsfunda með forsetabréfi í þingfrestun ef þörf er talin á að Alþingi komi saman. Slíkt gerðist t.d. 17. júní 2014 þegar forsetabréf var gefið út um að Alþingi skyldi koma saman til framhaldsfunda 18. júní það ár. 


Þingfundatímar

Þingfundatímar eru þessir: 

mánudaga kl. 15.00,  þriðjudaga kl. 13.30, miðvikudaga kl. 15.00, fimmtudaga kl. 10.30. 

Ef fundur er á föstudegi hefst hann oftast kl. 10.30.

Reglulegir þingfundir samkvæmt starfsáætlun skulu ekki standa lengur en til kl. 8 síðdegis. Frá því má þó víkja ef þingflokkar ná samkomulagi þar um eða ef þingfundur samþykkir það. Tillögu um lengri fundartíma getur forseti borið upp án nokkurs fyrirvara. Þá getur forseti ákveðið að þingfundur standi til miðnættis á þriðjudagskvöldum. 

Þingrof

Kjarni þingrofshugtaksins er sá að í þingrofi felst heimild handhafa framkvæmdarvaldsins (forseta Íslands að tillögu forsætisráðherra) til að stytta kjörtímabil Alþingis, en Alþingi er kjörið til fjögurra ára í senn. Sjá nánar um þingrof.

Þingsályktun

Tillaga til þingsályktunar sem hefur verið samþykkt af Alþingi.

Þingsályktunartillaga

Alþingi getur lýst stefnu sinni eða ákvörðunum án þess að setja lög. Er það gert með þingsályktunum sem oft fela í sér áskorun á ríkisstjórnina um að sjá um framkvæmd verkefnis, undirbúa löggjöf eða rannsaka tiltekið mál. Þingsályktunartillögur eru ræddar við tvær umræður. 

Þingskjalsnúmer 

Sjá málsnúmer. 

Þingskjöl  

Öll þingmál, frumvörp, þingsályktunartillögur, fyrirspurnir og skýrslur, sem og nefndarálit, breytingartillögur og aðrar tillögur um afgreiðslu, eru lögð fram prentuð. Skjölin eru einu nafni nefnd þingskjöl. Þau fá númer, sjá málsnúmer.